Ytri Rangá veiðistaðalýsing.

Ytri Rangá veiðistaðalýsing. Helstu veiðistaðir

Veiðistaðalýsing - Ytri Rangá Ytri Rangá

Áin er áreiðanlegasta laxveiðiá landsins, er alltaf mátulega vatnsmikil og verður aldrei óveiðanleg vegna flóða. Hún er fullkomin til fluguveiða. Þar má finna laxa í öllum stærðum, boltaurriðar og sjóbirtingar. Hún er fjölbreytt með fossa sína, flúðir og breiður. Ytri-Rangá er ein stærsta lindá landsins, hún rennur í gegnum þorpið Hellu, 96 km frá Reykjavík. Upptökin eru í Rangárbotnum í gífurlegum uppsprettum undan Hekluhrauni. Veiðisvæðið nær frá Galtalækjarskógi að ósum Hólsár en það er nafn Ytri-Rangár eftir að Þverá sameinast henni við hin vel þekkta veiðistað Djúpós sem margir þekkja og eiga í ástar-/haturs sambandi við. Bakkalengd veiðisvæðisins er um 70 km að vesturbakka Hólsár meðtöldum, en aðal laxasvæðið er um 25 km. Áin er frekar lygn og rennsli hennar fremur jafnt, en algengt meðalrennsli hennar við Hellu er á bilinu 44 til 57 rúmmetrar á sekúndu. Hér á eftir fylgja lýsingar frá þremur veiðimönnum sem þekkja ána og hafa veitt og leiðsagt í henni undangengin ár en þeir eru Pétur Steinar Jóhannsson, Trausti Arngrímsson og Alexander Freyr Þórisson.

Djúpós Djúpós stendur við djúpósstíflu sem reist var árið 1923. Gríðarlegt magn af fiski gengur þarna í gegn og oft sér maður stórar göngur koma inn með loftköstum. Veiðimenn eiga ástar-/haturssamband við þennan stað þar sem hann er ekki fyrir fótafúna vegna stórra grjóta. En ástæðan fyrir að veiðimenn koma alltaf aftur að staðnum er sá að það er alltaf séns á að setja í fisk. Djúpós á það til að fyllast af fiski í byrjun júlí. Við veiðar í Djúpós er best að byrja þar sem grjótgarðurinn hefst og gott er að vaða út í hnédýpt og taka beina línu að grjótnefinu sem er ofarlega á staðnum. Þegar komið er þangað er farið upp á grjótin og veiða sig alla leið niður að Djúpósnefi. Mikið af fiski safnast í vasa í kringum hraða strauminn þar sem línustrengur kemur að bakkanum við minnisvarðan. Veiðimenn skulu reyna sleppa eins og unnt er að labba háa bakkann svo ekki sé styggt staðinn. Þegar straumurinn byrjar að þyngjast er gott að þyngja setupið og veiða hægar. Mikilvægt er að veiða alveg að bakkanum og hinkra í 2-3 sekúndur áður en farið er að huga að næsta kasti.


Gunnugil Gunnugilsbreiða er frábær veiðistaður sem leynir á sér. Lagt er bílnum við skiltið og sjá menn brot rétt fyrir neðan bílastæðið. Byrja að veiða fyrir ofan brotið og alveg í kringum grjótið, annað grjót er fyrir neðan sem geymir oft lax. Gunnugilið er langur veiðistaður og skal veiða hann alveg að trjágróðrinum sem er alveg á bakkanum. Menn vaða hnédjúpt fyrir ofan fyrsta grjót og vinna sig að landi þegar það byrjar að dýpka og enda á bakkanum. Laxinn getur haldið sér alveg við bakkann og ávalt skal leyfa línunni að rétta úr sér. Gamla gunnugilsbreiðan er 300 - 400 metrum neðar en bílastæðið þar sem að gamall árfarvegur er og byrjað nokkrum metrum fyrir ofan gamla árfarveginn og veitt 100 metra neðar en gamli árfarvegurinn kemur út í. Gamla gunnugilsbreiða er einstaklega góður göngustaður.

Náman/17A 17A er frábær veiðistaður sem heldur laxi langt út tímabilið, bílnum er lagt beint fyrir framan veiðistaðinn. Byrja við kletta nefið og veiða sig alveg niður eftir. Laxinn liggur oftast milli tveggja grjóta en hann getur einnig legið uppvið eða neðan við grjótin en það borgar sig að veiða alla leið í hæga vatnið og ekki hætta að kasta alveg strax halda áfram nokkur köst við endan á veiðstaðnum.


Klöppin Klöppin er veiðistaður fyrir neðan Ægissíðufoss, stórskemmtilegur veiðistaður sem byrjar fyrir neðan fossbreiðu og niður fyrir hraðan streng sem teygir sig í næsta veiðistað fyrir neðan. Best er að byrja á klöppinni sjálfri og þverkasta að eyjunni sem er beint á móti. Leyfa línunni alveg að rétta úr sér, fiskurinn tekur oftar en ekki þegar línan er orðin þráðbein. Vinna sig niður að hæga vatninu.


Fossbreiða Ægissíðufoss í allri sinni mynd, það er mikill kraftur á þessum veiðistað. Byrjað er að kasta rétt fyrir neðan foss og veitt alveg niður að klöppinni. Fossinn er einstaklega skemmtilegur göngustaður. Gott ráð beint fyrir neðan foss er að kasta í átt að nefinu láta línuna sökkva og strippa hratt inn. Ævintýrin gerast í fossinum.


Hornið Hornið er fyrsti veiðistaður fyrir ofan Ægissíðufoss. Lagt er á bílastæðinu við fossinn og gengið upp ánna. Það þarf að vaða að þessum veiðistað, best er að vaða fyrir ofan flúðirnar og á sandeyrina sem staðið er á þegar Hornið er veitt. Öruggast er að tveir veiðimenn fari saman og styðji hvorn annan. Hornið er veitt niður í hraðann stút, kasta alveg að grasbakkanum og láta reka niður í stútinn. Hornið gefur væna laxa á göngutíma.


Rangárflúðir Rangárflúðir eða Homepool er án efa einn sá fallegasti veiðistaðurinn í ánni, ef ekki á Íslandi. Rangarflúðir eru beint fyrir neðan veiðihúsið. Bera skal í huga þegar gengið er að flúðunum er að fiskurinn getur legið mjög nálægt landi, sérstaklega á morgnanna. Rangárflúðirnar eru tveir veiðistaðir, sandeyrin fyrir ofan og flúðirnar sjálfar. Best er að byrja efst á sandeyrinni, alls ekki vaða meira en tvö skref út í ánna og veiða sig alveg niður á flúðarbrotin. Þegar flúðirnar sjálfar eru veiddar veður veiðimaður rétt fyrir neðan brotin og kastar að stóru grjóti sem er staðsett nálægt brotinu og allt þar í kring veiða sig alveg niður hraða strenginn. Einnig er hægt að vaða grjótgarðinn á flúðunum eftir fyrsta rennsli og kasta í átt að austur bakka og unnið sig að vesturbakka.

Tjarnarbreiða Stórskemmtilegur veiðistaður sem hægt er að veiða bæði frá bakka og vaða út í ánna og kasta að bakka. Best er að byrja út í ánni og kasta að bakkanum, það myndast áll rétt við bakkann og fiskurinn heldur sig í honum veiða alveg frá merkinu að girðingu. Veiðistaður heldur fiski allt tímabilið.

Hellisey Það má segja að Hellisey er sett saman af 3 tökustöðum, bakkin meðfram eyjunni, klöpp út í ánni og síðan kemur reitur við bakkann rétt fyrir neðan þar sem brotinu lýkur til vesturs. Hellisey er staðsett fyrir neðan brúnna og er keyrt undir brúnna til að komast að staðnum. Besta aðferðin til að ná því mesta úr þessum veiðistað er að veiða brotið sem myndast við þessa klöpp þá er vaðið út í ánna og kastað beint í átt að hinum bakkanum. Síðan er miðað alltaf á brotið og það er mikilvægt að flugan hittir á brotið. Góðar flugur eru sunray. Ef mikil sól setja grænt gúmmí á sunray túpuna í stað glært. Einnig er frances á gullkrók mjög góð þarna #12. Hægt er að veiða Hellisey austan megin og þá er vaðið yfir neðan kistu og þaðan upp beint frá eyjunni.


Stallmýrarfljót Stallmýrarfljót er lengsti veiðistaðurinn í Ytri Rangá. Hægt að veiða hann frá landi og í ánni. Ef hann er veiddur frá landi þá er vaðið yfir útrennslið á sleppitjörninni og staðið í bakkanum. Stallmýrarfljót heldur mikið af fiski, og þegar veiðistaðurinn er veiddur þá verða veiðimenn að halda áfram að veiða staðinn. Ef fiskurinn tekur ekki í fyrsta eða öðru kasti þá mælum við með að halda áfram auðvelt að festast tímunum saman við einn og sama fiskinn. Eitt kast og tvö skref er fín regla í Stallmýrarfljóti ef veiðimenn ætla að komast yfir allt svæðið. Veitt er alveg niður þar sem að bakkinn lækkar og hægist á rennslinu. Alltaf að leyfa línunni að rétta úr sér, laxinn er líklegur að taka fluguna þegar línan hefur rétt úr sér. Varist að ganga á háa bakkanum, ef veiðimenn ætla að byrja neðar þá vinsamlegast gangið yfir túnið svo þið styggið ekki laxinn fyrir þann sem kemur á eftir.

Jónsbreiða Jónsbreiða er næsti veiðistaður fyrir ofan Stallmýrarfljót. Hægt er að koma að veiðistaðnum bæði vestan- og austanmegin. Þegar komið er að Jónsbreiðu vestanmegin er farið niður sama veg og að Stallmýrarfljóti og lagt bílnum þar. Best er að vaða yfir á hinn bakkann og taka beina línu frá skilti og í átt að eyju. Varhugavert er þó að vaða þar sem straumur er mikill á köflum og dýpi mismikið. Að austanverðu er lagt við Ólastreng og labbað niður með ánni. Fiskur getur legið á löngum kafla, allt frá þar sem áin byrjar að breikka í hraða straumnum og langt niður að Stallmýrarfljótseyju. Í hraða straumnum er gott að vaða í hnédýpt og kasta að hinum bakkanum og vinna sig alla leið niður að eyju. Þegar komið er í hægari straum og áin breiðari er óhætt að vaða dýpra og hægar. Fiskur liggur í vösum um miðja á en gott er að byrja að vaða í átt að landi þegar bílastæðið hjá Stallmýrarfljóti er í beinni línu því fiskur getur legið nálægt landi neðarlega á Jónsbreiðu. Mörg dæmi er um ævintýralega veiði þegar liðið er á tímabilið og hafa margir veiðimenn farið skælbrosandi frá Jónsbreiðu því þetta er einn af alskemmtilegustu stöðum Ytri- Rangár.

Textalýsing: Pétur Steinar Jóhannsson, Trausti Arngrímsson og Alexander Freyr Þórisson.

Fleiri fréttir

Hólsá Borg 2023

Hólsá Borg Borgin er sama sem uppseld á besta tíma enda eitt af bestu laxveiðisvæðum landsinns í sínum flokki með svakalega meðalveiði. það voru að

Read More »

Vorveiðin hefst 1 Apríl

Nú er bara rúmur mánuður í að veislan byrji og við hjá IOveidileyfi.is erum að verða viðþolslaus af veiðispenningi. Hér fyrir neðan er upptalning á

Read More »