Hvernig er júní veiðin í Ytri Rangá?
Júní getur verið gríðarlega skemmtilegur og krefjandi, náttúran lifnar öll við og fyrstu laxarnir gera sína innreið í árnar. Miklar tilfinningar eru í loftinu hjá veiðimanninum, þar sem óvissa og eftirvænting við að ná fyrsta laxi tímabilsins er ríkjandi. Júní er ekki tími fyrir magnveiði, heldur til að upplifa ógleymanlega stund þegar fyrsti lax sumarsins er loksins kominn í háfinn. Það er einstök upplifun að freista gæfunnar á þessum árstíma. Nánast allir fiskar sem veiðast í júní eru yfir 72 cm, og sjaldan veiðast fiskar undir þeirri stærð. Einnig er mikið um sjóbirting á ferðinni í júní og byrjun júlí. Birtingurinn er ekki síðri en laxinn; hann er yfirleitt stór og tökuglaður, og hafa veiðst fiskar sem eru hátt í 90-95 cm.
Laxinn helst aðallega á neðri hluta árinnar, frá Rangárflúðum niður að Borg, þó veiðist fiskur einnig í Stallmýrarfljóti, sem er staðsett ofan bæinn Hella. Á þessum tíma er mikilvægt að vera léttur á fæti, veiða hratt og skipulega til að ná að yfirfara sem mest án þess að vera efins um að hafa misst af einhverjum bletti. Mörgum hefur reynst vel að nota skothausa sem sökkva örlítið undir yfirborðið, t.d. intermediate-hraða, ásamt því að nota sökktaum með mismunandi sökkhraða eftir þörfum.
Góðir staðir í Júní eru Rángárflúðir, Ægissíðufoss, Klöppin, 17.a, Gamla og Nýja Gunnugil, Hrafntóftir, Breiðibakki, Hólmabreiða, Djúpós og Borg.
Helstu flugurnar á þessum tíma eru Bismo, Sunray Shadow, Valbeinn og Collie Dog túbur, og gott er að nota óþyngdar túbur til að láta þær dansa betur í straumnum. Helstu stærðir á túbum eru um 2”, með löngum eða stuttum væng, og bestu litirnir eru svartur, hvítur og blár, helst alltaf með tinsel eða glans, en hægt er að gera undantekningu með Collie á áltúbu.
Í júní eru seldir stakir veiðidagar án gistingar, en við bjóðum þó upp á gistingu með kvöldmat, hádegismat og morgunmat. Það eru ávalt tveir til þrír æfinga leiðsögumenn á flakki um ánna og eru þeir til aðstoða veiðimenn með leiðbeiningar, veiðiaðferðir, háfun og flutning á klak hryggnum. Það er ávalt hægt að heyra í þeim og biðja þá um aðstoð.
Hægt er að sjá lausa daga hér; Ytri Rangá, hægt er einnig að hafa samband í tölvupóst hér: [email protected]
Ritað af Alexander Freyr Þórisson, leiðsögumaður og starfsmaður hjá IO veiðileyfi.


